Skilmálar þessir eru almennir viðskiptaskilmálar Tónaflóðs og gilda þeir um öll kaup aðila á þjónustu hjá félaginu.
Tónaflóð áskilur sér einhliða rétt til að breyta viðskiptaskilmálum þessum með mánaðar fyrirvara. Breytingar eru tilkynntar viðskiptavini með skilaboðum á reikningi og/eða með tölvupósti.
Seljandi er Tónaflóð, kt. 551289-2069. VSK númer: 122422.
Kaupandi er sá sem skráður er á reikning gefnum út af seljanda.
Viðskiptaskilmálar þessir eru ófrávíkjanlegir og gilda um öll viðskipti, tilboð og samninga um kaup á þjónustu, nema samið sé um annað með skriflegum hætti. Sé um frávik að ræða skulu breytingar vera skriflegar og undirritaðar af báðum aðilum. Meginstarfsemi Tónaflóðs snýr að þjónustu við lögaðila og gilda lög um lausafjárkaup nr. 50/2000 um slíka þjónustu. Í þeim tilfellum sem um einstaklinga utan atvinnurekstrar er að ræða, gilda lög um neytendakaup nr. 48/2003 og lög um þjónustukaup nr. 42/2000.
Afgreiðslutími Tónaflóðs er mánudaga til fimmtudaga frá kl. 10-16 og föstudaga frá kl. 10-13 nema um annað sé samið. Allar þjónustubeiðnir skulu sendar á netfangið [email protected] og er þeim svarað á afgreiðslutíma.
Öll verð eru gefin upp í íslenskum krónum án vsk. Virðisaukaskattur leggst svo ofan á verð í samræmi við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Verð á útseldum tíma er 14.900 kr. + vsk og er lágmarks útseldur tími 15 mínútur. Sé óskað eftir þjónustu utan afgreiðslutíma félagsins bætist 50% álag ofan á tímagjaldið.
Vinsamlegast athugið að verð á netinu geta breyst án fyrirvara og öll verð eru birt með fyrirvara um innsláttarvillur.
Samningur um vefhönnun telst kominn á þegar tilboð hefur verið samþykkt af báðum aðilum. Tónaflóð ákveður gildistíma tilboðs og er Tónaflóð eingöngu bundið af tilboði hafi það verið samþykkt af viðskiptavini með formlegum hætti innan gildistíma þess. Samþykki í tölvupósti telst fullnægjandi.
Viðskiptavinur greiðir innborgun innan þriggja virkra daga frá samþykki tilboðs. Eftirstöðvar eru greiddar í samræmi við greiðsluskilmála í tilboði.
Öll verk sem ekki koma fram í samningi teljast aukaverk og eru reikningsfærð samkvæmt tímagjaldi hverju sinni. Reikningar eru gefnir út þegar verki er lokið. Gjalddagi er daginn eftir útgáfu reiknings og eindagi er 10 dögum síðar.
Þar sem vefsíðurekandi ber ýmsar lagalegar skyldur þegar kemur að rekstri vefsvæða, þá leggur Tónaflóð áherslu á fylgni við persónuverndarlög og önnur gildandi lög í hönnunarferli sem og hýsingu. Af því leiðir að félagið tekur ekki að sér vefsíðugerð án þess að taka að sér hýsingu á vefsvæði líka þar sem ýmsar persónuverndarráðstafanir eru gerðar á vefþjóninum sjálfum.
Samningur um hýsingu telst kominn á þegar tilboð hefur verið samþykkt af báðum aðilum. Tónaflóð ákveður gildistíma tilboðs og er Tónaflóð eingöngu bundið af tilboði hafi það verið samþykkt af viðskiptavini með formlegum hætti innan gildistíma þess. Samþykki í tölvupósti telst fullnægjandi.
Viðskiptavinur hefur val um að greiða hýsingu fyrirfram mánaðarlega eða árlega samkvæmt reikningi.
Mánaðargjald
Gjalddagi mánaðarlegra reikninga er 20. hvers mánaðar og eindagi er 10 dögum eftir gjalddaga.
Uppsagnarfrestur á mánaðarlegri hýsingu er einn mánuður og tekur gildi um mánaðarmót. Uppsögn sem berst fyrir 20. hvers mánaðar tekur gildi næstu mánaðarmót á eftir. Uppsögn sem berst eftir 19. hvers mánaðar tekur gildi um þar næstu mánaðarmót.
Árgjald
Þegar valið er árgjald fyrir hýsingu á nýjum vef, er gjalddagi reiknings vegna hýsingar dagurinn sem vefurinn fer í loftið á léni viðskiptavinar og eindagi er 10 dögum síðar. Samningurinn gildir þá í 12 mánuði og er óuppsegjanlegur á þeim tíma. Að þeim tíma liðnum framlengist samningurinn um ár í senn og er uppsegjanlegur mánuði áður en til samningsloka kemur.
Öll gögn sem Tónaflóð hýsir fyrir viðskiptavini er á þeirra eigin ábyrgð. Viðskiptavini er óheimilt að vista á vefsvæði sínu efni sem brýtur gegn ákvæðum þessara skilmála eða er í bága við íslensk lög. Tónaflóði er heimilt að fjarlægja eða hindra aðgang að gögnum sbr. 14. gr. laga nr. 30/2002 um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, komi til slíkra brota.
Viðskiptavini er óheimilt að trufla, skerða eða á nokkurn hátt hafa áhrif á notkun annarra viðskiptavina sem nýta sér þjónustu Tónaflóðs.
Tónaflóð áskilur sér rétt til að hætta að veita og eftir atvikum loka á þjónustu til viðskiptavinar komi til vanefnda af hálfu viðskiptavinar. Til vanefnda teljast hvers kyns brot á skilmálum þessum og samningum á milli Tónaflóðs og viðskiptavinar, meðal annars hvers kyns greiðsludráttur.
Sé reikningur greiddur eftir eindaga greiðir viðskiptavinur dráttarvexti frá gjalddaga til greiðsludags skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Tónaflóð áskilur sér rétt til að loka fyrir þjónustu til viðskiptavinar þegar ógreiddir reikningar eru orðnir tveir talsins og verður þjónustan ekki opnuð á ný fyrr en fullnaðarskil hafa verið gerð.
Báðir samningsaðilar geta rift samningi án fyrirvara, ef um er að ræða verulega vanefnd af hálfu hins aðilans í samræmi við almennar reglur.
Ef um verulega vanefnd af hálfu viðskiptavinar er að ræða áskilur Tónaflóð sér rétt til að rifta samningi og skal Tónaflóð ekki vera bótaskylt vegna tjóns er tengist slíkri riftun.
Seljandi heitir kaupanda fullum trúnaði um allar þær upplýsingar sem kaupandi gefur upp í tengslum við viðskiptin.
Tónaflóð leggur áherslu á að öll vinnsla persónuupplýsinga sé í samræmi við gildandi persónuverndarlög eins og nánar er tilgreint í persónuverndarstefnu félagsins.
Við samningslok er þjónusta tekin niður og gögnum eytt. Tónaflóð varðveitir ekki gögn viðskiptavinar eftir að gildistíma samnings er lokið eða honum hefur verið sagt upp af öðrum orsökum. Öll vinna sem Tónaflóð sinnir vegna samningsloka er unnin í tímavinnu.
Um skilmála þessa og samning aðila gilda íslensk lög og réttarreglur. Rísi ágreiningur milli aðila skulu þeir leitast við að leysa hann sín á milli, en að öðrum kosti vísa honum til Héraðsdóms Norðurlands eystra til úrlausnar, nema samningsaðilar semji um annað.