Hvað eru stafræn fótspor?

Stafræn fótspor eða spor í stafrænu umhverfi er slóð upplýsinga sem einstaklingur eða fyrirtæki skilur eftir á Netinu, beint eða óbeint. Nánast allar athafnir á Netinu skilja eftir sig spor og saman mynda þau stafrænt fótspor viðkomandi.

Stafræn fótspor einstaklinga

Með því að mæla með vörum eða þjónustu á Netinu, deila myndum eða skrifa athugasemdir, er einstaklingur að upplýsa um persónueinkenni sín. Þegar einstaklingur leitar að upplýsingum á Netinu eða kaupir vörur, þá skilur hann eftir sig slóð upplýsinga.

Stafræn fótspor einstaklinga samanstanda af upplýsingum sem þeir deila beint eða óbeint og geta innihaldið upplýsingar um leitarsögu og vefsíður sem hafa verið skoðaðar, vörur sem hafa verið keyptar í netverslunum, athugasemdir sem hafa verið skrifaðar við fréttir eða greinar og færslur sem hafa verið skrifaðar á samfélagsmiðla, svo dæmi sé tekið. Stafræn fótspor geta þannig gefið ítarlega mynd af áhugamálum einstaklinga og athöfnum og haft áhrif á það hvernig hinn stafræni heimur sér og hefur samskipti við viðkomandi.

Stafræn fótspor fyrirtækja

Stafræn fótspor fyrirtækja eru umfangsmeiri en stafræn fótspor einstaklinga og ná yfir þá slóð upplýsinga sem daglegur rekstur og samskipti skilja eftir sig. Þar koma til sögunnar bæði starfsmenn fyrirtækjanna sem og viðskiptavinir, en allir þessir einstaklingar hafa sín eigin stafrænu spor og slóðin sem þeir skilja eftir sig getur verið hluti af stafrænu fótspori viðkomandi fyrirtækis.

Athafnir starfsmanna geta skilið eftir sig slóð upplýsinga sem verða hluti af starfrænu fótspori fyrirtækis þegar þeir meðhöndla stafræn gögn eða nota nettengdan búnað fyrirtækis, til dæmis fartölvu eða síma og þegar þeir koma fram fyrir hönd viðkomandi fyrirtækis á Netinu.

Athafnir viðskiptavina geta skilið eftir sig slóð upplýsinga sem verða hluti af starfrænu fótspori fyrirtækis þegar þeir deila upplýsingum með fyrirtækinu t.d. með því að fylla út eyðublöð á vefsíðu fyrirtækis eða kaupa vörur í netverslun. Einnig með því að birta umsagnir um fyrirtækið á samfélagsmiðlum.

Tegundir stafrænna fótspora

Stafræn fótspor eru ýmist aktíf (e. active) eða passíf (e. passive). Séu þau aktíf, innihalda þau upplýsingar sem einstaklingur deilir viljandi á Netinu t.d. með því að skrá færslur á samfélagsmiðla, fylla út eyðublað á vefsíðu eða samþykkja notkun á vafrakökum. Séu þau hins vegar passíf, þá innihalda þau upplýsingar sem einstaklingur deilir óafvitandi, yfirleitt vegna þess að rakningartækni er notuð án vitundar viðkomandi.

Mikilvægt að hafa í huga

Það er mikilvægt að hafa í huga að stafræn fótspor geta átt langan líftíma. Auðvelt er að misnota myndir og upplýsingar, en erfitt getur reynst að fjarlægja efni sem einu sinni er komið á Netið. Það er því mikilvægt að fylgast vel með sínu stafræna fótspori til að verjast ógnum á Netinu. Ýmsar leiðir eru mögulegar í þeim tilgangi og verður það umfjöllunarefni næstu greinar.

Þar til næst…


Grein þessi er unnin upp úr meistararitgerð höfundar í lögfræði. Öll afritun er óheimil.

Selma Hrönn Maríudóttir

Selma er lögfræðingur og rafeindavirki að mennt og hefur einnig stundað nám í kerfisfræði og forritun auk þess að sitja fjölda námskeiða á sviði netöryggis. Selma hefur starfað á sviði upplýsingatækni í áraraðir, meðal annars í tölvugeiranum sem rafeindavirki, en lengst af á sviði veflausna.

Efni þessarar greinar