Hugtakið persónuvernd
Hugtakið persónuvernd er ekki skilgreint formlega í íslenskum lögum, en rætur þess má rekja til heimspekilegra sjónarmiða og grundvallarmannréttinda einstaklinga um friðhelgi og vernd.
Friðhelgi einkalífs
71. grein stjórnarskrárinnar kveður á um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og að ekki megi skerða þau réttindi nema með sérstakri lagaheimild og að nauðsyn krefji í lýðræðislegu samfélagi. Sambærileg vernd er tryggð í 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE). Hugtakið persónuvernd tekur mið af þessum grunnhugmyndum og felur í sér bæði rétt einstaklingsins til að ráða yfir eigin persónuupplýsingum og skyldu samfélagsins til að tryggja vernd hans gegn óviðeigandi afskiptum. Þannig nær persónuvernd ekki einungis yfir vald einstaklingsins yfir eigin upplýsingum heldur einnig þá meginreglu að velferð hans og öryggi séu í forgrunni.
Lagaumhverfi persónuverndar
Lagaumhverfi persónuverndar byggir á þeirri hugmynd að friðhelgi einkalífs sé grundvallarmannréttindi, en þó með þeim fyrirvara að í tilteknum tilvikum geti almannahagsmunir eða réttindi annarra réttlætt takmarkanir. Slíkar takmarkanir þurfa þó ávallt að vera lögmætar, nauðsynlegar og í samræmi við meðalhóf.
Í íslensku réttarkerfi hefur Persónuvernd, sem sjálfstæð stofnun, eftirlit með því að meðhöndlun persónuupplýsinga fari fram í samræmi við lög og reglur. Stofnunin gætir sérstaklega að því að lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 séu virt, en þau byggja á Evrópureglugerðinni um persónuvernd sem jafnan er nefnd GDPR reglugerðin.
GDPR reglugerðin hefur haft víðtæk áhrif á persónuverndarlöggjöf á Íslandi og annars staðar í Evrópu. Hún leggur ríkar skyldur á fyrirtæki, félög og opinberar stofnanir sem vinna með persónuupplýsingar. Reglugerðin kveður á um að meðferð persónuupplýsinga skuli vera í samræmi við lög og takmörkuð við skýran tilgang. Hún veitir einstaklingum einnig ýmis réttindi, þar á meðal rétt til aðgangs að eigin gögnum, rétt til leiðréttingar og rétt til að gleymast.
Vefsíður og persónuvernd
Fyrirtæki og félög bera ábyrgð á því að vinnsla persónuupplýsinga á vefsíðum þeirra sé í samræmi við gildandi lög og reglur. Við sérhæfum okkur í ráðgjöf og lausnum á sviði persónuverndar og aðstoðum viðskiptavini við að innleiða öflugar og áreiðanlegar persónuverndarlausnir.
Þar til næst…