Stafræn fótspor sem leiða að netöryggisskildi, sem táknar leiðir til að takmarka stafræna slóð á netinu.

8 leiðir til að takmarka stafræn spor þín á netinu

Eins og fram kom í síðustu grein þá eru stafræn fótspor upplýsingar sem við skiljum eftir okkur þegar við notum Netið, til dæmis leitarferill og samfélagsmiðlafærslur. Þau geta verið aktíf sem á við þegar við deilum viljandi upplýsingum opinberlega, eða passíf þegar við deilum upplýsingum óafvitandi eins og þegar vefsíður fylgjast með hegðun okkar á Netinu. Þegar þú skráir þig inn á samfélagsmiðil og deilir mynd með vinum þá verður til aktíft fótspor. Á sama tíma safnar samfélagsmiðillinn upplýsingum um staðsetningu þína og hegðun sem myndar passíft fótspor.

Þessi fótspor eru oft nýtt til að bæta upplifun okkar, sérsníða auglýsingar og auka aðgengi. En þau geta einnig verið skotmark tölvuþrjóta og fyrirtækja sem nýta upplýsingar í hagnaðarskyni. Óprúttnir aðilar geta notað þau til að safna upplýsingum um okkur, stunda svik eða jafnvel framkvæma persónuþjófnað. Að vera meðvituð um hvernig stafræn fótspor myndast og hvernig þau eru notuð getur því hjálpað okkur að auka öryggi okkar, takmarka upplýsingar sem við deilum og taka upplýstar ákvarðanir um persónuvernd.

Leitaðu að nafninu þínu á Netinu

Framkvæmdu leit með nafninu þínu á mismunandi leitarvélum til að sjá hvaða upplýsingar eru aðgengilegar um þig. Ef þú finnur viðkvæmar eða rangar upplýsingar, þá getur þú haft samband við vefstjóra viðkomandi síðu og beðið um að upplýsingarnar verði fjarlægðar.

Settu upp vöktun á nafninu þínu

Upplýsingar um þig geta breyst án þess að þú vitir af því. Með því að nota þjónustu eins og Google Alerts getur þú fengið tilkynningar þegar nafnið þitt birtist á Netinu. Þetta hjálpar þér að fylgjast með nýjum upplýsingum sem kunna að koma fram um þig og að grípa til aðgerða ef þörf krefur.

Hertu persónuverndarstillingar

Farðu yfir persónuverndarstillingar á samfélagsmiðlum, í netverslunum og öðrum þjónustum sem þú notar. Með því að herða persónuverndarstillingar getur þú takmarkað hversu mikið af upplýsingum um þig er deilt opinberlega.

Takmarkaðu upplýsingarnar sem þú deilir

Persónuupplýsingar sem þú deilir á Netinu geta auðveldlega lent í röngum höndum. Skoðaðu og breyttu persónuverndarstillingum á samfélagsmiðlum til að takmarka hverjir sjá færslurnar þínar. Forðastu að deila upplýsingum eins og heimilisfangi, símanúmeri eða kennitölu opinberlega. Mundu að öllu sem þú deilir getur verið deilt áfram án þíns samþykkis. Það getur leitt til þess að óviðkomandi aðilar fái aðgang að þínum persónuupplýsingum.

Takmarkaðu heimildir forrita

Þegar þú setur upp forrit á snjalltækin þín, gefðu þeim þá aðeins aðgang að þeim upplýsingum sem eru nauðsynlegar fyrir virkni þeirra. Sum forrit þurfa aðgang að myndum, hljóði eða staðsetningu en önnur ekki. Farðu yfir hvaða heimildir þú hefur þegar veitt forritum á þínum snjalltækjum.

Hertu innskráningarleiðir

Lykilorðastjóri getur hjálpað þér að búa til og geyma einstök og sterk lykilorð fyrir hvern aðgang, sem eykur öryggi þitt á netinu. Tveggja þátta auðkenning (2FA) er önnur öryggisráðstöfun sem bætir auka öryggislagi við hefðbundin lykilorð.

Forðastu að nota einskráningu (SSO)

Það getur verið þægilegt að nota Google eða Facebook til að skrá sig inn á aðra aðganga (Single Sign-On – SSO) en það getur líka verið varasamt. Google og Facebook safna miklu magni af gögnum um notendur og þegar þú notar aðganginn þinn frá þessum fyrirtækjum til að skrá þig inn annars staðar, þá gefur þú þeim leyfi til að fylgjast með hvaða þjónustur og öpp þú notar. Fyrirtækin geta líka deilt upplýsingum um þig með þriðja aðila.

Takmarkaðu fjölda aðganga

Fjarlægðu eða gerðu óvirka þá aðganga sem þú notar ekki lengur. Því fleiri aðganga sem þú hefur, því stærra verður stafræna fótsporið þitt.

Þar til næst…

Selma Hrönn Maríudóttir, lögfræðingur, vefhönnuður og rafeindavirki, með sérfræðiþekkingu í lögfræði, vefsíðugerð og tækni.

Selma Hrönn Maríudóttir

Selma er lögfræðingur og rafeindavirki að mennt og hefur einnig stundað nám í kerfisfræði og forritun auk þess að sitja fjölda námskeiða á sviði netöryggis. Selma hefur starfað á sviði upplýsingatækni í áraraðir, meðal annars í tölvugeiranum sem rafeindavirki, en lengst af á sviði veflausna.

Efni þessarar greinar